15. júní 2023
Nýtt lag frá Greifunum
Í febrúar fengum við nóg af frostinu og veðrinu og létum okkur dreyma um sumarið og að komast í frí.

Úr varð lagið "Saman í frí" og skelltum við okkur í stúdíóið hjá Viggni Snæ og tókum það upp á "núll einni". Addi 800 masteraði svo lagið og við komum því fyrir á Spotify.

Lagið hefur verið notað í aulgýsingum frá fyrirtækinu Víkurverk sem selur útilegu vörur af öllum stærðum og gerðum.

Nú í sumar er lagið svo að heyrast meira á útvarpsstöðvum landsis og er í 15 sæti vinsældalista Bylgjunnar þegar þetta er skrifað.
13. júní 2013
Nýtt lag frá Greifunum
Við skelltum okkur í stúdíó núna í vikunni og tókum upp nýtt lag sem mun bera nafnið "Ég gleymdi að spyrja". Viddi samdi bæði lag og texta og fjallar það um mann sem kynntist stúlku í brekkunni á Þjóðhátíð Vestmannaeyja og verður ástfanginn en gleymdi að spyrja um nafn hennar og á því erfitt með að finna hana aftur. Hver hefur ekki lent í þessu? :-)

Lagið var tekið upp í herbergi 313 með snillingnum Adda 800 en hann hefur tekið upp okkar síðustu lög með góðum árangri.

Gera má ráð fyrir að lagið heyrist í næstu viku á betri útvarpsstöðvum auk þess sem það kemur út á safnplötu Senu nú í sumar.
Svo mun verða hægt að hlusta á það hér á vefnum innan tíðar.
27. september 2011
25 ára afmæli Greifanna
Á þessu herrans ári eigum við 25 ára afmæli og í því tilefni verða sérstakir hátíðar afmælistónleikar í Austurbæ við Snorrabraut og í Hofi á Akureyri.
Á tónleikunum verðum við með aukahljóðfæraleikara og fáum gestasöngvara til að taka nokkur lög með okkur.

Tónleikarnir verða sem hér segir:
Austurbær 6. október kl. 20:00 [Kaupa miða á midi.is]
Hof Akureyri 8. október kl. 20:00 [Kaupa miða á menningarhus.is]

Sjá nánar á Facebook

Einnig er væntanlegt, núna í næstu viku, 3 diska safnútgáfa með 40 vinsælustu lögum okkar og nánast öllum myndböndum og sjónvarpsþáttum sem við höfum komið fram í á síðustu 25 árum.
17. nóvember 2010
Greifarnir á SPOT í Kópavogi 20.11.2010
Greifarnir á Spot þýðir bara eftirfarandi.
Það kemur fiðringur um allan kroppinn við tilhugsunina.
Það verður fullt hús og svakalega gaman.
Það verður hiti og sviti.

Nú þarft þú að byrja að smala vinum og vandamönnum og redda pössun því enginn má missa af þessu einstaka kvöldi.

Svo er að láta alla sem þú þekkir vita af þessu og hina líka.

Þeir sem eru á póstlistanum geta alltaf átt von á að vera boðið á ball!
Ef þú ert ekki nú þegar á póstlistanum getur þú skráð þig á forsíðunni.

Sjá nánar um viðburðinn á Facebook
27. ágúst 2009
Nýtt lag komið í spilun frá Greifunum.
Nú er verið að leggja lokahönd á nýja íslenska bíómynd, Jóhannes, þar sem valinn leikari er í hverju hlutverki. Viddi var fenginn til að sjá um alla tónlist í myndinni og Greifarnir beðnir um að flytja titillag myndarinnar sem er eftir Vidda.
Nú er upptökum á laginu lokið og það komið í spilun á allar útvarpsstöðvar.

Leikarar úr myndinni aðstoðuðu okkur við söng í laginu og fóru þar fremstir í flokki Stefán Karl og Laddi en auk þeirra komu einnig við sögu Unnur Birna, Sigrún og Stefán Hallur.
Hlusta á lagið Jóhannes

Myndin er stórgóð og hvetjum við alla til að skella sér á hana en hún verður frumsýnd 16. október.
Sjá facebook síðu myndarinnar
8. júlí 2009
Þrennir tónleikar á norðurlandi helgina 10-11. júlí.
Landsmót UMFÍ er þessa helgi á Akureyri og bærinn fullur af fólki og fjöri.

Fyrst spilum við á föstudaginn 10. júlí ásamt fleirum á 20 ára afmæli Vífilsfells á Akureyri en svo skemmtilega vill til að við spiluðum einmitt fyrir þá þegar þeir opnuðu fyrir 20 árum. Tóleikarnir verða úti við dreifingarmiðstöð Vífilsfells og standa frá kl. 16:00 til 19:00.

Um kvöldið verður svo Greifaball í Sjallanum og hefjast leikar um miðnætti og standa fram eftir nóttu.

Laugardaginn 11. júlí verður hin margrómaða Grímsey heimsótt í fyrsta skipti af Greifunum.
Þar stendur yfir sjóstangaveiðimót og verður blásið til bals um kvöldið og allir mæta sem vetlingi geta valdið.
30. apríl 2009
Sannleikur - Nýtt lag frá Greifunum
Nýtt lag með Greifunum, Sannleikur, var frumflutt á Bylgjunni í morgun.
Lagið er eftir Bjössa og textinn eftir Bjössa og Vidda.

Lagið sem er í anda rokklaga Billy Idol var samið á bassa og er þetta í fyrsta sinn sem Bjössi semur lag á það hljóðfæri: "Þetta var ótrúlega skemmtilegt og vonandi á ég eftir að semja meira á bassann" sagði hann.

Textinn fjallar um hina eilífu leit að sannleikanum og á einmitt mjög vel við ástandið í þjóðfélaginu þessi misserin.

Sólóið í laginu er svolítið sérstak, í Indverskum stíl, enda er stór hluti Greifanna orðnir mjög andlega sinnaðir i seinni tíð :)

Hægt er að hlusta á lagið hér.


3. apríl 2009
Gott gengi að undanförnu
Eftir mikil rólegheit á árinu 2008 höfum við verið að koma oftar fram að undanförnu. Mætingin hefur verið frábær og stemmningin í botni og þá verður tónleikafíknin eins og ólæknandi vírus hjá okkur drengjunum.

Um síðustu helgi vorum við í Sjallanum á Akureyri en þar höfum við ekki spilað í ein 5 ár. Akureyringar fjölmenntu í fantastuði ásamt öðrum landsmönnum en í vetur hefur Akureyri verið full af túristum og þá aðalega íslendingum. Landinn virðist vera að uppgötva Akureyri sem betri kost en erlendar síðaparadísir sem er hið besta mál.

Nú er kúrsinn tekinn á Players Kópavogi föstudaginn langa þann 10. apríl 2009 og hefjast leikar upp úr miðnætti. Nú er bara málið að gleyma öllu þunglyndi og allri neikvæðni og skella sér á Nostalgíu ball með Greifunum.


1. febrúar 2009
Öll okkar lög komin á heimasíðuna
Nú eru öll okkar lög komin inn á síðuna í fullri lengd og ókeypis á að hlýða en þetta eru rúmlega 70 lög. Þarna eru lög sem hafa aldrei komið út nema á vínil og fullt af öðrum lögum sem eru ófáanleg í dag.

Afmælisútgáfan af Útihátið sem kom út 2006 er komin inn, nýjustu lögin okkar "Betra en gott og "Haleljúja" eru líka komin inn. Einnig vorum við að bæta við útgáfunni "Upp'á Palli" sem var tvöfaldur diskur þar sem annar diskurinn var safnplata en hinn innihélt upptökur af órafmögnuðum tónleikum í íslensku óperunni sem haldnir voru 11. októrber árið 2001. Á þeim tónleikum voru flutt 2 lög sem aldrei hafa komið út á öðru formi.

Við hvetjum alla til að kíkja á listann, þarna eru pottþétt einhver lög sem þú hefur ekki heyrt áður.

Fara í lagasafnið
1. nóvember 2008
Greifarir á Players föstudagskvöldið 8. nóvember 2008
Loksins Greifaball!!!
Við verðum á Players í Kópavogi laugardagskvöldið 8. nóv. næstkomandi.

Nú er liðið meira en ár síðan við komum fram "rafmagnaðir" og virkilega kominn tími á að sletta ærlega úr klaufunum.

Því miður komast ekki Jón Ingi og Ingó á þetta ball en í þeirra stað koma engir aukvissar en það eru þeir Jakob Smári Magnússon og Pálmi Sigurhjartarson en þeir hafa báðir áður hlaupið í skarðið og spilað með bandinu.

Við byrjum að spila um miðnættið og verðum að langt fram eftir nóttu.
1. nóvember 2008
Greifarir á Facebook og iLike
Búið er að stofna aðgang fyrir Greifana á Facebook og iLike og hvetjum við þá sem vilja fylgjast með okkur á þessum vinsælu vefsvæðum að skrá sig ekki seinna en núna.

Svo hefur hún Dísa líka stofnað aðdáendasíðu á Facebook og þú getur smellt hér skrá þig þar.
8. mars 2008
MYNDBÖND KOMIN Á VEFINN
Þær nýjungar voru að detta í hús að núna er hægt að sjá nokkur Greifamyndbönd hér á vefnum.
þetta eru myndbönd við lögin Elskan þú ert namm, Eina nótt með þér, Í engum kjól og Skiptir engu máli. Það er von okkar að við komum fleiri myndböndum hér inn með tíð og tíma.
Sjá lagalista

Annars er það að frétta af hljómsveitinni að hún er í pásu þessa mánuðina og ekkert vitað hvenær við komum til með að troða upp aftur.

Þangað til verður þessi vefsíða að duga :)
20. júlí 2006
LAGIÐ ÚTIHÁTÍÐ Í NÝJAN BÚNING
Nákvæmlega um þessar mundir eru 20 ár síðan lagið Útihátíð hljómaði fyrst á öldum ljósvakans og í eyru landsmanna. Allar götur síðan hefur þetta lag verið einkennislag mestu djammhelgi ársins, Verslunarmanna-
helgarinnar. Í tilefni þessa tímamóta fengum við Reykjavik Music Productions til að útsetja lagið upp á nýtt og taka það upp í nýjum búningi. Við ákváðum að koma ekki að þessu verkefni nema bara að syngja lagið.

Hópur valinkunna tónlistamanna lagði í púkkið og hér eru nokkrir:
Útsetning - Þorvaldur Bjarni og Gunnar Þór Jónsson (Gunni í Sóldögg)
Trommur - Óli Hólm
Raddir - Heiða Óla
Gítar Gunnar þór Jónsson

Við vonum að nýja útgáfan falli vel í geð landsmanna og framlengi líf þessa annars lífseiga lags sem gefið hefur verið út á meira en 15 plötum.
21. maí 2006
NÝTT LAG KOMIÐ Í SPILUN
Við höfum lokið við upptökur á fyrstu fjóru lögunum og er eitt þeirra þegar komið í spilun. Það lag heitir "Betra en gott" og er lag og texti eftir Sveinbjörn Grétarsson.

Hin lögin heita "Lífið er leikur", "Halelúja" og "Entangled". Já, hér er brotið blað í sögu Greifanna því Entangled er fyrsta lagið sem við vinnum með enskum texta ef frá er talið hinn bjagaði grín texti í laginu Senjorita sem Laddi var með okkur í.

Við erum búnir að setja inn hluta af laginu "Betra en gott" hér á vefinn og hægt er að hlusta á það hér.

Á myndinni hér hægra megin má sjá baksvip Adda 800 sem stjórnaði upptökum í Stúdíó Sýrlandi. Einnig má sjá Ingó með kók í hendi að mæta í "Session".
8. maí 2006
GREIFARNIR AFTUR Í HLJÓÐVER
Undanfarna mánuði höfum við félagarnir verið að semja ný lög og texta og þessa dagana erum við í hljóðveri að taka upp fyrstu fjögur Greifalögin. Þessi fjögur lög voru valin úr 15 laga hópi sem öll voru samin á síðustu mánuðum nema eitt sem var samið fyrir c.a. 22 árum síðan og verður fyrsta lag okkar með enskum texta, og texta sem einhver annar hefur samið. Textinn er eftir vin okkar sem lést fyrir mörgum árum.

Í framhaldinu er svo ætlunin að spila á nokkrum vel völdum stöðum og byrjuðum við um síðustu helgi á Broadway og var ánægulegt að sjá þar mörg kunnugleg andlit.

Búið er að ganga frá tónleikum á Players í Kópavogi, Sjallanum á Akureyri, Húsavík og fleiri stöðum og verður það auglýst nánar bæði á þessum vef og í fréttabréfi okkar.
11. desember 2005
GREIFARNIR SENDA FRÁ SÉR NÝTT JÓLALAG
Í nóvember skruppum við félagarnir í stúdíó og tókum upp nýtt jólalag og ef þú hlustar á útvarp gætir þú heyrt það þessa dagana.
Lagið fékk nafnið Fyrstu jólin og er eftir þá Vidda og Bjössa, textinn er eftir Vidda. Upptökustjóri var Óskar Páll og stúdíóið var Sýrland.
Það hefur ekki komið nýtt lag frá okkur í nokkur ár svo að þetta hlýtur að teljast til tíðinda.

Annars er það að frétta að við höfum verið að hittast þó nokkuð að undanförnu og eftir þessa fundi liggja þó nokkur lög á lager. Aldrei að vita nema að þau komi út á næsta ári en þá eiga Greifarnir 20 ára afmæli.

Við ákváðum að senda lagið ókeypis til allra sem skráðir eru á póstlistann okkar. Já það borgar sig að vera skráður!
[Skrá mig á póstlistann]
10. maí 2005
GREIFARNIR SPILA Á ODDVITANUM Á AKUREYRI
Núna um hvítasunnuhelgina laugardagskvöldið 14. maí og sunnudagdagskvöldið 15. maí ætlum við að troða upp á Oddvitanum á Akureyri.

Okkur var farið að klæja það mikið í spilagenin að eitthvað varð að gera. Það er ekkert áformað um að spila meira en bara þessa einu helgi.

Aðaláherslan verður lögð á gömlu Greifaslagarana og að hafa gaman af þessu. Myndin hér til hægri var tekin í æfingarhúsnæði Spútnik í síðustu viku þar sem við fengum aðstöðu til að liðka okkur upp fyrir átökin. Þökkum Spútinkmönnum fyrir það.

Eins og ávalt þá hlakkar okkur mikið til að hitta Akureyringa og nærsveitarmenn.

25. ágúst 2004
GREIFARNIR SPILA Á ODDVITANUM Á AKUREYRI
Greifarnir rumska af þyrnirósarsvefni um næstu helgi og spila á Oddvitanum á Akureyri laugardagkvöldið 28. ágúst 2004.

Hefur rykið verið dustað af gíturum hljóborðum og öllum Greifalögunum og er spenningur kominn í mannskapinn.

Gunnar Hrafn verður þó ekki með í hópnum vegna anna en Ingó mun lemja trommurnar af sinni alkunnu snild í staðinn. Höfum við að auki fengið Guðna frænda Jóns Inga frá Húsavík til að þukkla hljómborð og spila á ýmis önnur hljóðfæri en Guðni er löngu frægur fyrir sína frábæru tónlistarhæfileika.

Hlökkum til að hitta Akureyringa að nýju og aðra gesti líka.
17. apríl 2003
NÆSTU UPPÁKOMUR GREIFANNA
2. maí Players Kópavogi
16. maí Broadway
17. maí Sjallinn Akureyri

Við vorum að klára að hljóblanda óperutónleikana sem verða gefnir út í sumar og ætlum að halda fyrsta ballið á Players í Kópavogi 2. maí nk.

Þann 16. maí verður svo einstök uppákoma á Broadway þar sem verður boðið upp á órafmagnaða tóleika Greifanna yfir borðhaldi þar sem saga hljómsveitarinnar verður rakin. Eftir borðhald verður svo að sjálfsögðu dúndurball a'la Greifarnir.

Sjallinn Akureyri verður svo 17. maí, hann er nú einn af okkar uppáhalds stöðum og er okkur þegar farið að hlakka til. Enda drjúgur tími síðan síðasta Greifaball var á Akureyri.

31. mars 2003
GREIFARNIR VAKNA ÚR DVALA
Við erum búnir að vera í fríi í 18 mánuði og núna er komið að því að fara teygja úr sér og huga að einhverjum gjörningum.

Í bígerð er að Skífan gefi út tvöfaldan disk með Greifunum í sumar.
Annar diskurinn verði 20 til 24 laga safnplata með vinsælustu lögum Greifanna frá upphafi til dagsins í dag en hinn innihaldi 12 til 14 lög sem tekin voru upp á órafmögnuðum tónleikum í Óperunni 11. október árið 2001.

Í tilefni af þessu ætlum við að taka nokkur vel valin "gigg" í sumar og verða þau auglýst hér á síðunni þegar nær dregur.
28. maí. 2002
ELDHÚSPARTÝ FM957 KOMIN ÚT
Nú er kominn út safndiskurinn ELDHÚSPARTÝ FM957 sem gefin er út í samstarfi SPOR og FM957. Á þessum disk eru "órafmagnaðar" upptökur frá öllum helstu hljómsveitum landsins og eru 2 lög frá okkur Greifunum á disknum, Reyndu aftur og Frystikistulagið. Bæði lögin voru tekin upp í Óperunni þann 11. október 2001.

Frystikistulagið er óþarft að kynna en þarna er það komið í glænýjan og skemmtilegan búning, hálfgerð "kántrý" útsetning með fiðlu, slide-gítar og kvenmans bakröddum. Virkilega gaman að þessari útgáfu og að okkar áliti betri en "orginallinn".
Reyndu aftur er glænýtt lag sem hefur ekki heyrst áður.
Lagið er eftir Bjössa og Vidda en textann á Viddi einn.
Leit.is
25. feb. 2002
Greifarnir.is vefur dagsins á leit.is
Í dag var vefur okkar Greifanna, www.greifarnir.is vefur dagsins á leit.is. Það er engum blöðum um það að fletta að aðsóknin inn á vefinn hefur aldrei verið meiri á einum degi ;o)

Þegar þetta er skrifað hafa 1.000 gestir, bara í dag, heimsótt vefinn sem við getum ekki annað en verið ánægðir með og viljum við hér með skila kærum þökkum til starfsfólks leit.is.

Leit.is
Leit.is
14. feb. 2002
Öll Greifalögin á vefnum
Nú er hægt að hlusta á öll lög Greifanna hér á vefnum. Meira að segja lög sem aldrei hafa verið gefin út nema á vínil plötum. Má glögglega heyra í rispunum á þeim lögum enda plöturnar orðnar æði aldraðar.
[Hlusta á lögin, skoða texta eða hljóma]

Það eru ekki full hljómgæði á þessum lögum en ansi nálægt því engu að síður. Þau eru þjöppuð á mp3 form á 96kb/s og eru þetta frá 2.5 til 4 Mb.

Einnig er hægt að sjá textana við sum lögin og einnig hljómana. Ætlunin er að sjálfsögðu að setja texta og hljóma við öll lögin fljótlega í framtíðinni.
12. feb. 2002
Ný heimasíða Greifanna
Nú er ný og vonandi betri heimasíða hljómsveitarinnar komin í loftið.
Mun meiri áhersla var lögð á útlit þessa vefs en gamla vefsins og ætlum við okkur að reyna halda honum eins lifandi og efni standa til.

Núna er hljómsveitin í pásu og er ekki búið að ákveða neitt um framhaldið þannig að á meðan verða ekki miklar fréttir hér á síðunni. En eitt er víst að um leið og eitthvað verður að frétta þá kemur það fyrst fram hér á heimasíðu okkar.

Ef þið hafið einhverjar athugasemdir, spurningar eða hvað sem er þá endilega sendið okkur línu.