Smelltu til að fara á forsíðu!
Þú ert hér!
   
KYNNIÐ YKKUR SÖGU GREIFANNA
Hér fyrir neðan finnur þú ágrip af sögu hljómsveitarinnar.

Sagan nær aftur til ársins 1983 þegar Bjössi kynntist Vidda og Jóni Inga og þeir byrja að gutla saman í hljómsveitinni Special Treatment. 1985 bætist Gunni í hópinn og svo 1986 var bandið íslenskað í Greifarnir og Felix kemur inn. Felix er sá eini af upprunanlegu meðlimunum sem er hættur. Árið 1994 bætist Ingó í svo í hópinn.
Upphafið, Special Treatment:
Segja má að saga Greifanna hefjist árið 1983 í herberginu hans Vidda, heima hjá foreldrum hans á Garðarsbrautinni á Húsavík. Þarna hófu Viddi, Bjössi og Jón Ingi að glamra saman á hljóðfæri í fyrsta sinn. Viddi og Jón Ingi höfðu báðir lært á píanó, en þar sem Viddi var komin lengra og Jón Ingi átti frænda sem spilaði á bassa, lá beint við að Viddi væri á píanóinu og Jón Ingi fengi bassann hjá frænda sínum lánaðan. Bjössi hafði lært klassískan gítarleik í tvo vetur og tók að sér gítarleikinn. Fljótlega var ákveðið að kalla þennan flokk "Special Treatment".

Frá upphafi samdi Special Treatment öll lög og texta sjálfir en spiluðu ekki lög eftir aðra, sennilega af því að kunnáttan var ekki til staðar. Græjurnar voru ekki burðugar til að byrja með. Bjössi hringdi suður í hljóðfæraverslunina Rín og sagðist vilja fá sendan svartan rafmagnsgítar með sveif og einhvern svona rock pedala. Fyrir svörum var Maggi Eiríks og sendi hann ágætis gítar og boss overdrive í póstkröfu og á heiður skilið fyrir afgreiðsluna. Fyrir bassa og gítarmagnara voru notuð gömul og forlát lampaútvörp sem fundust einhverstaðar í geymslu. Þegar við lítum til baka þá furðum við okkur á hvað góður hljómur var í þessum útvörpum.

Á fyrsta ári Special Treatment varð þegar til grunnurinn af mörgum þektustu lögum Greifanna seinna meir. Special Treatment spilaði á nokkrum tónleikum í bíóinu á Húsavík og var ætíð fullt út úr dyrum. Það mátti án efa þakka óvenjulegum auglýsingaaðferðum hljómsveitarinnar en strax frá upphafi áttuðu meðlimirnir sig á mikilvægi markaðssetningar í þessum bransa. Til dæmis fengum við Ásdísi, mömmu Vidda, til að sauma risanærbuxur sem voru 3 metrar í þvermál, merktar SPECIAL TREATMENT, fyrir okkur og voru þær hengdar upp framan á bíóið. Á þessum fyrstu mánuðum vantaði hljómsveitina illilega trommara og var ýmislegt reynt í þeim efnum. Viddi vissi af trommusetti uppi á háalofti á einhverjum sveitabæ í Kelduhverfi og var ekið þangað og settið keypt. Þetta var perlumunstrað hvítt trommuset og var bassatromman úttroðin af Morgunblaðinu frá árinu 1961. Ýmsir aðilar þreyttu próf á settið en einhvern veginn gat enginn þeirra heillað okkur. Ástæðan var örugglega sú að enginn þeirra hafði nokkurn tíman spilað á trommur áður. Þá var farið á stúfana og samið við þungarokks-hljómsveitina Lucifer, sem var líka frá Húsavík, um að fá trommarann þeirra lánaðan. Gunni (trommari) passaði vel inn í móralinn og, því miður fyrir Lucifer, þá var honum aldrei skilað aftur. Special Treatment tók þátt í hljómsveitarkeppni hjá Stuðmönnum í Atlavík um Verslunarmanna-helgina 1984 og endaði í fjórða sæti. Á veturna vorum við allir í skóla í Reykjavík. Viddi, Jón Ingi og Bjössi voru í Ármúlaskóla en Gunni í MH. Var hljómsveitin með æfingaaðstöðu í kjallaranum í Ármúlaskóla og var einnig skólahljómsveit hans.

Haustið 1985 var svo ákveðið að taka þátt í Mússiktilraunum Tónabæjar og enduðum við í öðru sæti á eftir hljómsveitinni Gipsy, sem spilaði þungarokk eins og það gerðist best á þessum árum. Í verðlaun voru tímar í stúdíó Stemmu sem Diddi fiðla átti og var stormað þangað og tekin upp nokkur lög sem voru svo flutt í hinum rómaða þætti Jóns Gústafssonar Rokkarnir geta ekki þagnað. Um verslunarmannahelgina þetta sama ár spiluðum við svo á bindindismótinu í Galtalæk. Þarna strax var útlitið ekki látið sitja á hakanum og var sítt að aftan tískan notuð til hins ítrasta. Æskuvinur Vidda og Jóns Inga, Vignir var fenginn til að skutla okkur á eðalvagni sem hann átti. Kom í ljós þegar gripurinn var fylltur af bensíni að gat var á miðjum tanknum og vall eldsneytið þar út svo að bensíngufa mikil myndaðist inn í farþegarýminu með þeim afleiðingum að nokkur hausverkur gerði vart við sig í hópnum á leiðinni en kom ekki að sök. Special Treadment kom síðan fram á ýmsum skólaskemtunum en breytinga var greinilega þörf ef halda ætti áfram.

Greifarnir verða til:
Haustið1986 ákváðu meðlimir Special Treatment að taka aftur þátt í Músiktilraunum og leggja allt í sölurnar. Ef sigurinn yrði ekki okkar myndi hljómsveitin leggja upp laupana. Ákveðið var að íslenska bæði nafn og texta sveitarinnar. Eftir miklar vangaveltur var ákveðið að nefna hana Greifarnir. Vorum við strákarnir sammála um að gott væri að fá vanan sviðsmann til að vera "frontur" hljómsveitarinnar og benti frændi hans Bjössa, Gunnar Már, okkur á Felix en þeir voru saman í Versló. Felix hafði slegið þar í gegn í Rocky Horror söngleiknum. Seinna átti Gunnar Már eftir að verða umboðsmaður okkar Greifanna. Við höfðum samband við Felix og hann kom á æfingu hjá okkur í Gamla Víkingsheimilið og söng þar "Turn me loose" með Loverboy en það er ekki á allra færi (og ekki hans heldur.) En við sáum að þarna var rétti maðurinn kominn og Felix sló til.

Greifarnir unnu svo Músiktilraunir. Aldrei fyrr hafði athygli fjölmiðla verið eins mikil á þessari keppni eins og þetta ár. Bein útsending var frá keppninni á Rás 2, sem var þá ný og fersk og eina stöðin fyrir utan "Gufuna". Sýnt var í sjónvarpinu frá úrslitakvöldinu í heild og í öllum blöðum voru heilu opnurnar um keppnina. Ekki skemmdi heldur fyrir að Reykjavík átti 200 ára afmæli þetta ár og hélt upp á það með því að ráða til landsins hljómsveitir á borð við Madness, Simply Red, Fine Young Cannibals, Lloyd Cole and the Commotion svo einhverjar séu nefndar. Við í Greifunum fengum að hita upp fyrir þessar hljómsveitir á Listapoppi í Laugardalshöll. Var þetta mikil reynsla fyrir okkur græningjana.

Klæðnaður Greifanna var á heimsmælikvarða og rúmlega það þetta kvöld og voru meðlimir erlendu bandanna mjög áhugasamir hvaðan búningarnir voru fengnir. Eftir tónleikana var haldið heljarinnar partý á Hótel Borg og þangað mættu öll böndin ásamt aðstandendum Listapopps. Í því partýi narraði ein bakradda-söngkona í Fine Yong Canibals frakkan af Vidda en lenti þá í þeirri lífsreynslu að vera lamin illþyrmislega í bakið af Jóni Inga bassaleikara sem hélt að hún væri Bjössi gítarleikari. Hún snéri sér sár og undrandi við og þá mælti Jón hinn feikihressi þessa ódauðlegu setningu: "Sorrý, æ þot jú vas von of ðe greifs".

Verðlaunin fyrir sigurinn í Músiktilraunum voru einnig að spila á Arnarhóli á sjálfri afmælishátíðinni, stærstu íslensku tónleikum sem þá höfðu verið haldnir. Á Arnarhólnum voru 20.000 manns og allt var sýnt í beinni í sjónvarpinu. Þannig að á Íslandi hafði engin hljómsveit fengið jafnmikla athygli á eins stuttum tíma, svona nýbyrjuð. Við nýttum okkur tækifærið til hins ítrasta, keyptum helling af fötum til að spila í, vorum með sérstakan stílista, hana Írisi, sem sá um greiða og mála okkur, æfðum sérstaklega fyrir hverja tónleika og svona mætti lengi telja. Fyrir fyrsta sætið á Músiktilraunum fengum við 20 klst. í stúdíó og notuðum við þær, ásamt samningi við Steinar hf., til að taka upp fyrstu plötu Greifanna, Blátt blóð. Á henni voru lögin Útihátíð, Sólskinssöngurinn, Er þér alveg sama og Ég vil fá hana strax. Þetta sumar var vinsældarlisti Rásar 2 nýbyrjaður og allir fylgdust vel með honum. Á tímabili voru öll fjögur lög Greifanna í einu inni á "Topp 20" og vikuna fyrir Verslun-armannahelgina náði Útihátíð efsta sæti listans, þannig að greinilegt var að landsmenn kunnu að meta Greifana.

Næstu ár spiluðum við vítt og breytt um allt land og gáfum út eina til tvær plötur á ári. Metnaður Greifanna hefur alltaf verið að skemmta fólki og sjálfum sér í leiðinni.

Látum myndirnar tala sínu máli :o)


Tónleikar árið 1977 á tröppunum á Túngötu 15
á Húsavík. Viddi, Vignir, Jón Ingi og Sævar.


Special Treatment árið 1983
Viddi, Bjössi og Jón Ingi


Tveir þreyttir á heimleið eftir Atlavík 1985
Jón Ingi og Gunni


Greifarnir árið 1986


Greifarnir árið 1987


Greifarnir árið 1989


Greifarnir árið 1996